Vinaliðar í Melaskóla

vinalidar

Í febrúar hefst verkefnið, „Vinaliðar“, hér í Melaskóla.

Vinaliðaverkefnið er norskt að uppruna, það hefur á fáum árum náð mikilli útbreiðslu og er nú starfrækt í yfir 1000 skólum í Noregi.
Hér á Íslandi eru skólarnir orðnir 47 og þeim fjölgar jafnt og þétt. Vinaliðaverkefnið gengur út á það að hvetja nemendur til meiri þátttöku í afþreyingu í frímínútunum og skapa betri skólaanda.

„Vinaliðar“ hefst á miðstiginu (í 5. – 7.bekk) og tilnefna nemendur bekkjasystkini sín til þátttöku en alls eru valdir 3 „vinaliðar“ úr hverjum bekk í hverri bekkjardeild. „Vinaliðarnir“ starfa svo í tveimur frímínútum í hverri viku auk þess að sjá um skipulagningu leikjaáætlunar ásamt verkefnastjórum. Verkefnastjórar „Vinaliða“ í Melaskóla eru þau Daníel G. Hjálmtýsson, umsjónarkennari 6. DGH og Hulda Guðrún Gunnarsdóttir, umsjónarkennari 4. HGG.

Kynningar á verkefninu fara fram í öllum bekkjum dagana 24. – 27.janúar nk. en tilnefningar fara fram í hverjum bekk strax að kynningu lokinni. Umsjónarkennari hefur þó lokaorðið þegar kemur að útnefningu „vinaliða“ en verkefnið styður ekki við vinsældarkosningar innan hvers bekkjar.

Að útnefningu lokinni (og með samþykki forráðamanna) eru „vinaliðar“ boðaðir á fund með verkefnastjórum og hefst vinaliðaverkefnið í Melaskóla þann 6.febrúar nk. Í kjölfarið sækja „vinaliðar“ Melaskóla leikjanámskeið, ásamt „vinaliðum“ Vesturbæjarskóla, í KR-heimilinu þann 9.febrúar nk. en þar mæta forsvarsmenn verkefnisins á landsvísu og kenna börnunum sniðuga leiki til að nýta í frímínútum.
Námskeiðið er áætlað 9.febrúar frá 09.00 – 12.00.

Hér á heimasíðu skólans er hlekkur inn á heimasíðu verkefnisins www.vinalidar.is, fyrir þá sem vilja kynna sér málin betur.   

Tangram

tangram_kubbarnirNemendur í 7. og 6.bekk eru þessa dagana að teikna upp og framleiða tangram kubba í hönnunar og smíðatímum. Nemendur byrja á því að kynnast þessari raðþraut, síðan teikna þau upp kubbana og málsetja í teikniforriti. Eftir það eru kubbarnir fræstir út í tölvustýrðum fræsara og nemendur fullvinna kubbana svo og setja í pappírsöskju sem þau teikna líka upp í teikniforritinu og klippa svo út.

 tangramTangram er forn raðþraut sem kemur frá Kína. Þjóðsagan segir að Tan hafi haldið á ferkantaðri steinhellu og misst hana á jörðina. Við það brotnaði hún í 7 hluta og þegar Tan leit niður til að setja hana saman sá hann að hægt var að móta margskonar myndir úr brotunum. (Leikjavefurinn og  Grunfeld. 1985. Spil og leikir um víða veröld. Reykjavík: Almenna bókafélagið. Bls 274-275)

Tangram-netleikur: http://pbskids.org/cyberchase/math-games/tanagram-game/

Kennsla hefst 4. janúar

Nú er jólafrí starfsmanna og nemenda á enda runnið. Kennsla hefst á morgun, miðvikudaginn 4. janúar, kl. 8:30, samkvæmt stundaskrá. Um leið og starfsfólk Melaskóla óskar ykkur öllum gleðilegs, nýs árs með bestu þökkum fyrir það liðna, hlökkum við til að sjá ykkur í skólanum í fyrramálið, hress og kát og endurnærð eftir jólin!

Gleðilega hátíð

IMG 0055

Starfsfólk Melaskóla sendir ykkur hugheilar jólakveðjur með óskum um farsæld og frið á komandi ári. Kærar þakkir fyrir ánægjulegt samstarf á árinu sem er að líða. 

Kennsla hefst aftur samkvæmt stundaskrá miðvikudaginn 4. janúar 2017.